Innlent

Beðið átekta varðandi björgunarflug

Sif, björgunarþyrla Landhelgisgæslunnar, er á Akureyri en henni tókst að lenda þar um kl. 13:18 en hún var á leið að sækja fárveikan sjómann um borð í norskt selveiðiskip.

Þyrlan lenti fyrst á Dalvík vegna lélegs skyggnis en þegar vélin hafði verið þar í um tvær mínútur rofaði til og henni tókst að komast inn til Akureyrar. Áhöfn Sifjar bíður nú eftir ákvörðun um framhaldið en ráðgert er að meta stöðuna kl. 16.

Fokkerflugvél Landhelgisgæslunnar er að verða tæp á eldsneyti og þarf að snúa til Reykjavíkur til að tanka þar sem hún getur ekki lent á Akureyri vegna veðurs eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.

Skipið á nú eftir um 100 sjómílna siglingu til Akureyrar og siglir á 11 sjómílna hraða. Reiknað er með að það taki skipið um 9 klst. að sigla til Akureyrar. Fylgst er með ástandi veika sjómannsins og verður ákvörðun um flug m.a. tekin með hliðsjón af því hvernig ástand hans þróast næsta klukkutímann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×