Innlent

Maður lést í sprengingu á Kárahnjúkasvæðinu

Frá Kárahnjúkum.
Frá Kárahnjúkum. MYND/GVA

Karlmaður á tuttugasta og sjöunda aldursári lést í sprengingu á Kárahnjúkasvæðinu snemma í morgun. Engin slys urðu á öðru fólki.

Maðurinn var við sprengivinnu ásamt tveimur öðrum í svo kölluðum aðgöngum fjögur rétt neðan við Desjarárstíflu þegar sprengingin varð um klukkan fimm í morgun. Að sögn Sigðurðar Arnalds, upplýsingafulltrúa Landsvirkjunar, fólst vinnan í því að hlaða upp sprengihleðslum í borholur í aðgöngunum og var hann innar í göngunum en félagar hans tveir. Einhverra hluta vegna sprakk ein sprengihleðslnanna með þeim afleiðingum að grjót hrundi ofan á hann. Læknar úrskurðuðu manninn látinn á staðnum. Félaga mannsins sakaði ekki.

Ekki er vitað hvers vegna sprengingin varð en lögregla rannsakar nú málið ásamt vinnueftirlitinu, en sprengjusérfræðingur á vegum þess fór austur í morgun til að rannsaka vettvang. Maðurinn sem lést var starfsmaður Arnarfells sem er verktaki hjá Landsvirkjun. Ekki er hægt að greina frá nafni hans að svo stöddu. Hann er annar starfsmaður fyrirtækisins sem deyr við störf að Kárahnjúkum, en fyrir tveimur árum lést karlmaður við störf ofan í Hafrahvammsgljúfri þegar stór grjóthnullungur féll á hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×