Innlent

Kanna þarf áhrif á fuglalíf vegna efnistöku úr Ingólfsfjalli

Kanna þarf betur hvaða áhrif efnistaka úr Ingólfsfjalli hafi á fuglalíf, könnun á þessum þætti er á engan hátt fullnægjandi, segir í svari stjórnar Landverndar um frummatsskýrslu sem Fossvélar sendu frá sér í janúar um efnistöku úr fjallinu.

Landvernd fagnar því að nú skuli í fyrsta sinn verið fjallað skipulega um umhverfisáhrif af námuvinnslu í Ingólfsfjalli, en efnistaka þar hefur staðið í um 50 ár. Ingólfsfjall er mikilvægt kennileiti á Suðurlandi. Fjallið er áhugaverð jarðmyndun sem er einkennandi fyrir Ísland. Ingólfsfjall hefur menningarsögulegt gildi þar sem það ber nafn fyrsta landsnámsmannsins. Ingólfsfjall er vinsælt til fjallgöngu og er mikilvægt vatnsból.

Efnistaka í fjallshlíðum Ingólfsfjalls hefur lengi verið umdeild vegna sjónmengunar og verið til vitnis um þá staðreynd að stjórnvöld skortir úrræði til að ná tökum á þeim umhverfisvanda sem fylgir stjórnlausri efnistöku í gömlum námum.

Matsskýrsla staðfestir það sem sagt hefur verið um víðtæk og neikvæð sjónræn áhrif efnistök á þessu svæði. Í niðurstöðu matsins segir að sýnileiki námusvæðisins á Ingólfsfjalli muni verða mikill og ekki sé mögulegt að dylja þau landlagsspjöll sem felast í því að mynda um 80 m djúpa hvilft í fjallsbrúnina. Þessi miklu landslagslýti verða sýnileg frá fjölmennum þéttbýlisstað og hringveginum.

Að mati stjórnar Landverndar er þetta eitt fullgild ástæða til hafna alfarið áformaðri framkvæmd, hvort sem litið er til valkosts 1 eða 2. Stjórn Landverndar gerir athugasemdir við þann hluta skýrslunnar sem fjallar um áhrif framkvæmda á fuglalíf. Í skýrslunni segir að rykmengun sé talin hafa lítil sem engin áhrif á fuglalíf, miðað við annað rask sem fylgir námuvinnslunni. Þá er jafnframt fullyrt að kanna þurfi fuglalíf nánar á varptíma til að finna út hvaða fuglategundir verði fyrir áhrifum frá stækkaðri námu. Könnun á þessum þætti málsins er því á engan hátt fullnægjandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×