Innlent

Horfið frá því að sameina leikskóla?

MYND/Vísir

Ekki er víst að leikskólar Vestmannaeyjabæjar verði sameinaðir eins og til stóð. Ákveðið var í skólamálaráði bæjarins í gær að leggja það til við bæjarrstjórn að frestað verði að sameina yfirstjórnir leikskóla Vestmanneyjabæjar.

Sameining leikskóla bæjarins er hluti af stefnu sem bæjarstjórn markaði síðastliðið sumar. Þá var ákveðið að sameina grunn- og leikskóla til hagræðingar fyrir bæinn. Sjálfstæðiflokkur og V-listi Samfylkingarmanna og Vinstri-grænna mynda saman meirihluta í bæjarstjórn en hafa samtals sex fulltrúa af sjö. Andrés Guðmundsson er eini fulltrúinn í minnihluta og situr hann þar fyrir Framsóknarflokkinn og óháða. Á fundir skólaráðs í gær lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram tillögu um að það yrði lagt fyrir bæjarráð að frestað yrði að sameina leikskóla í bænum. Tillagan var samþykkt en varamaður Andrésar á fundinum greiddi atkvæði með henni. Andrés telur víst að tillagan fari í gegn á bæjarstjórnarfundi þar sem hann styðji hana auk fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Andrés telur að þetta ágreiningsmál meirihlutaflokkanna geti torveldað þeim samstarfið. Lúðvík Bergvinsson, bæjarfulltrúi V-lista, segir ekkert til í því. Honum þyki þó einkennilegt að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi borið upp tillögu sem gengur gegn þeirri stefnu sem bæjarstjórnin markaði síðast liðið sumar. Hann segir þó eðlilegt að samstarfsflokkar séu ekki alltaf sammála en málið verður tekið fyrir á bæjarstjórnarfundi í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×