Innlent

Öllu laxeldi hætt í Mjóafirði

Laxeldi í Hvammsvík.
Laxeldi í Hvammsvík.

Dótturfélag Samherja og Síldarvinnslunnar í Neskaupstað hefur ákveðið að hætta öllu laxeldi í Mjóafirði, en þar er nú yfir helmingur alls laxeldis í landinu. Vísbendingar eru um að laxeldið sé að taka aðra kollsteypu.

3,600 tonn af laxi úr stöðinni fóru á erlendan markað á nýliðnu ári en engum seiðum verður sleppt í stöðina í vor og verður henni lokað þegar búið verður að slátra þeim laxi, sem nú er í uppvexti, eða árið 2008. Ellefu starfsmönnum við eldið, verður sagt upp og er þegar búið að segja þremur upp. Háu gengi krónunnar og ört hækkandi rafmagnsverði er kennt um, í tilkynningu frá félaginu.

Að sögn Guðbergs Rúnarssonar er þetta mikið áfall fyrir þessa síðari tilraun landsmanna til laxeldis, en þegar laxeldinu verður hætt í Mjóafirði verða aðeins fjórar stöðvar eftir, sem framleiða matfisk.

Samherji, sem er aðaleigandi eldisins í Mjóafirði, á einnig verulegan hlut í tveimur af þeim fjórum stöðvum sem eftir verða, en ekki liggur fyrir á þessari stundu hvort eldi verður hætt þar líka. Laxeldi, sem hófst hér á landi á áttunda áratugnum með miklum uppgangi, hrundi nokkrum árum síðar og var að taka við sér aftur, en virðist nú á ný vera á hröðu undanhaldi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×