Innlent

Safnast saman fyrir utan launamálaráðstefnu

Frá fundi um málefni leikskólakennarar í Kópavogi.
Frá fundi um málefni leikskólakennarar í Kópavogi. MYND/Heiða

Leikskólakennarar á höfuðborgarsvæðinu ætla að safnast saman fyrir utan hús Orkuveitu Reykjavíkur eftir hádegi í dag, við upphaf launamálaráðstefnu sveitarfélaganna, til að leggja áherslu á kröfur sínar um bætt launakjör. Miklar vonir eru bundnar við að á ráðstefnunni náist samkomulag um laun leikskólakennara og ófaglærðra starfsmanna leikskólanna.

Ráðstefnan verður haldin í húsi Orkuveitu Reykjavíkur og hefst klukkan eitt. Gera má ráð fyrir að eitt af stærstu málum ráðstefnunnar verði launamál leikskólakennara og annarra starfsmanna á leikskólum sem hafa verið mikið í umræðunni að undanförnu. Hefur til að mynda bæjarstjórn Kópavogs lýst því yfir að ekkert verði aðhafst vegna uppsagna á leikskólum bæjarins fyrr en að ráðstefnunni lokinni. Eins má gera ráð fyrir því að launahækkanir hjá ófaglærðu starfsfólki á leikskólum Reykjavíkur verði rætt en þær hækkanir hafa haft keðjuverkandi áhrif á höfuðborgarsvæðinu og orðið þess valdandi að fjöldi fólks hefur sagt upp störfum á leikskólum í Reykjavík og nágrenni. Leikskólakennarar binda líka miklar vonir við ráðstefnuna. Samstarfshópur leikskólakennara og fulltrúa Reykjavíkurborgar sem settur var á laggirnar í því skyni að móta tillögur að úrbótum til handa leikskólakennurum í Reykjavík komst ekki að neinni niðurstöðu og því binda leikskólakennarar nú vonir sínar við að niðurstöður ráðstefnunnar verði þeim í hag. Á ráðstenunni verða mótaðar tillögur að launastefnu sveitarfélaganna sem síðan eru sendar Launanefnd sveitarfélaganna til umræðu. Það er svo Launanefndin sem tekur endanlega ákvörðum um þá stefnu sem sett verður í launamálum. Ráðstefnan stendur til klukkan fjögur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×