Innlent

Kjararýrnun hjá 90% þjóðarinnar

90% íslensku þjóðarinnar hafa orðið fyrir kjararýrnun vegna aukinnar skattbyrði á síðustu 10 árum. Þetta segir prófessor við Háskóla Íslands og hann segir að fullyrðingar ríkisstjórnarinnar um að skattar hafi lækkað hér á landi séu einhver mestu ósannindi íslenskra stjórnmála í marga áratugi.

Stefán Ólafsson, prófessor, ritar grein í Morgunblaðinu í dag þar sem hann færir rök fyrir því að skattbyrði hér á landi hafi aukist á langflesta Íslendinga á áratugnum 1994 til 2004.

Ef litið er á tölur má sjá að skattbyrðin hefur aukist langmest á þá sem hafa lægstar tekjur, en Stefán segir að í þeim hópi sé að finna öryrkja, eldri borgara og lágtekjufólk.

Skattbyrði á þær fjölskyldur sem höfðu undir 250 þúsund króna mánaðarlaun árið 2004 hefur aukist um 14 til 15 prósent á tíu ára tímabili og er þetta fólk að borga frá 275 þúsundum og upp í 448 þúsundum krónum meira í skatta nú en það hefði gert ef skattaumhverfið hefði verið eins og það var árið 1994.

Skattbyrði hefur aukist á alla launahópa landsins nema þær fjölskyldur sem hafa 1,2 milljónir á mánuði eða meira, þær borga minna í skatt nú en áður. Þetta þýðir að allir nema þeir allra launahæstu hafa tapað á skattabreytingunum sem gengu út á að lækka álagninguna en láta skattleysismörkin ekki hækka í samræmi við verðlag. Stefán segir fjarri lagi að það sé túlkunaratriði hvort skattar hafi hækkað eða lækkað.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×