Erlent

Geimryk jafngamalt sólinni

Hylki sem inniheldur geimryk jafngamalt sólinni lenti heilu og höldnu í eyðimörkinni í Utah í morgun. Vísindamenn vonast til að geimrykið gamla geti varpað ljósi á uppruna sólkerfisins.

Tæp sjö ár eru síðan bandaríska geimfarið Stardust, eða Geimryk, var sent í 4,7 milljarða kílómetra langferð til að taka sýni úr halastjörnunni Wild 2. Í morgun var hylki með sýnunum varpað úr farinu í þann mund sem það geystist framhjá jörðinni og var hraði hylkisins þegar það kom inn í gufuhvolfið fjörtíu og sex þúsund kílómetrar á klukkustund. Fallhlíf hægði þó á því síðasta spölinn og því sveif það rólega til lendingar skammt utan við Salt Lake City í Utah.

Í hylkinu, sem er á stærð við tennisspaða, eru yfir ein milljón örsmárra agna úr yfirborði halastjörnunnar sem vísindamenn telja að séu frá því að sólkerfið varð til fyrir 4,6 milljörðum ára en þetta er í fyrsta sinn sem tekist hefur að koma sýnum af þessu tagi til jarðarinnar. Vísindamennirnir vonast til að með nákvæmum rannsóknum verði þeir einhverju nær um hvernig og hvers vegna jörðin okkar myndaðist.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×