Innlent

Náttúrufræðistofnun fær styrk

MYND/E.Ol.

Skrifstofustjóri umhverfisráðuneytisins segir að framvegis fái Náttúrfræðistofnun styrk úr veiðikortasjóði með sama hætti og aðrir. Stofnunin fékk greitt úr sjóðnum í lok síðasta árs þótt umsóknafrestur sé ekki útrunninn - og renni ekki út fyrr en um miðjan febrúar.

Fyrst þegar Umhverfisráðuneytið óskaði álits Umhverfisstofnunar á umsókn Náttúrfræðistofnunar Íslands um styrk úr veiðikortasjóði, bað Umhverfisstofnunin um nýja rannsóknaráætlun frá Náttúrufræðistofnun. Umsóknin var þá orðin þriggja ára gömul. Ráðuneytið sagði hins vegar ekki þörf á nýrri áætlun og Náttúrufræðistofnun tók í sama streng. Ráðuneytið minnti á völd sín og sagði að umhverfisráðherra ákvæði hverjir fengju úthlutað úr veiðikortasjóði, þar á meðal Umhverfisstofnun sem rekur veiðikortakerfið. Þetta orðalag vekur spurningar um hvort Umhverfisstofnun hefði þurft að óttast synjun um framlag úr sjóðnum gæfi hún ekki umsögn eins og beðið hafði verið um. Umhverfisstofnun neitaði samt og vísaði í álit umboðsmanns Alþingis frá árinu 2004 um að fyrirgreiðsla af því tagi sem um væri beðið stæðist ekki lög.

Þann 30. desember fékk Náttúrfræðistofnun 6,6 milljónir króna samkvæmt beiðni Umhverfisstofnunar, þrátt fyrir allt. Í bréfi til ráðuneytisins 6. janúar tilkynnti Umhverfisstofnun ráðuneytinu um styrkveitinguna og vísaði í fyrirmæli í tölvupósti frá ráðuneytinu. Þó var ítrekað að stofnunin teldi þetta verklag ólögmætt. Tölvupóstsamskiptin, sem vísað er í, fylgdu ekki með gögnum um samskipti ráðuneytisins og Umhverfisstofnunar, sem NFS fékk afhent um þetta mál.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×