Innlent

Öll sveitarfélögin hafa lækkað álagningar fasteignagjalda

MYND/Pjetur

Öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa lækkað álagningargrunn fasteignagjalda fyrir þetta ár. Hafnarfjarðarbær varð í gær síðastur í röðinni til að samþykkja lækkun hans.

Álagningargrunnur fasteignagjalda verður lækkaður í Hafnarfirði til að vega upp á móti þeirri hækkun sem orðið hefur á matsverði íbúðarhúsnæðis. Þetta var samþykkt samhljóða á bæjarstjórnarfundi í gær. Þannig lækkar álagningarprósenta fasteignaskatts um 20 prósent, eða úr 0,335 prósentum í 0,270 prósent.

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti í síðasta mánuði að lækka álagningarhlutfall fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði um tæp tuttugu og tvö prósent, eða úr 0,32 prósentum í 0,25 prósent á þessu ári.

Áætlað er að fasteignaskattur af íbúðarhúsnæði í Garðabæ lækki úr 0,31 prósenti í 0,24 prósent af fasteignamati á þessu ári, sem er lækkun upp á tæplega tuttugu og þrjú prósent.

Bæjarstjórn Kópavogs fer þá leið að gefa sérstakan afslátt sem nemur hækkun matsverðs íbúðarhúsnæðis.

Álagningarprósenta fasteignaskatts í Mosfellsbæ lækkar um rúm átján prósent, úr 0,36 prósentum í 0,295.

Þá hefur Seltjarnarnesbær nú þegar ákveðið að lækka álagningarprósentuna úr 0,32 prósentum í 0,30 en frekari lækkun verður rædd á fundi bæjarstjórnar í næstu viku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×