Erlent

Fuglaflensutilfellum fjölgar enn

Tyrkneskur sóttvarnastarfsmaður fangar fugl sem á að farga.
Tyrkneskur sóttvarnastarfsmaður fangar fugl sem á að farga. MYND/AP

Fuglaflensutilfellum heldur áfram að fjölga í Tyrklandi og virðist fátt geta stöðvað för þessarar skaðræðisflensu vestur á bóginn. Þótt smithættan fari vaxandi telur Haraldur Briem sóttvarnalæknir ekki ástæðu til að vara við ferðum til landsins.

Fuglaflensa af H5N1-stofni hefur nú greinst á þremur svæðum í Tyrklandi og er veikin þar með orðið að faraldri í landinu. Í síðustu viku dóu þrjú systkin í austasta hluta þess, um helgina fannst flensan í höfuðborginni Ankara og í dag svo bárust fregnir um að íbúar við Svartahafið hefðu tekið sóttina. Recep Akdag, heilbrigðisráðherra Tyrklands, lýsti stöðunni á fréttamannafundi í morgun þegar hann heimsótti þorpið þar sem systkinin bjuggu. "Rannsóknarstofur hafa staðfest fjórtán tilfelli og þrír af þeim fjórtán sem hafa sýkst hafa þegar látist."

Ekki liggur nákvæmlega fyrir hvernig fjórtánmenningarnir smituðust en þó er vitað að börnin sem dóu höfðu leikið sér að höfðum hæsnahræja sem hafa að öllum líkindum verið sýkt. Talsmaður Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar í Tyrklandi lagði þó á það áherslu að ekkert benti til að veiran væri farin að berast á milli manna.

Tyrkirnir eru þeir fyrstu sem smitast af veikinni í Evrópu en þar til í síðustu viku hafði smit í mönnum einungis greinst í Suðaustur-Asíu og Kína. Þeir sem sýkjast eiga ekki náðuga daga í vændum. Auk þess að valda hefðbundnum flensueinkennum leggst veiran á öndunarfæri, lifur og jafnvel miðtaugakerfið. Haraldur Briem sóttvarnalæknir sagði í viðtali á NFS í dag að dánartíðni smitaðra væri afar há. Um helmingur allra sem smitast látast en til samanburðar létust þrjú prósent þeirra sem veiktust af spánsku veikinni og þótti dánartíðnin há.

Þrátt fyrir þetta telur Haraldur ekki ástæðu til að vara sérstaklega við ferðum til Tyrklands, en landið hefur verið vinsæll áningarstaður íslenskra ferðamanna undanfarin sumur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×