Innlent

Forseti Íslands hvetur fólk til að búa öldruðum áhyggjulaust ævikvöld

Í nýársræðu sinni hvatti forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, Íslendinga til að búa öldruðum áhyggjulaust ævikvöld. "Á æskuskeiði hinna eldri hafði þjóðin um aldir búið við þröngan kost, heimastjórn og fullveldi voru nýlega í höfn en heimskreppan á næsta leiti. Þúsundir heimila áttu erfitt með að ná endum saman og óvissa ríkti um framtíðina."



"Þessi kynslóð ýtti úr vör með fátt annað en hugsjónaeld í veganesti, metnað um framför þjóðarinnar og drauma um að skapa sér og sínum betra líf. Árangurinn varð svo sannarlega glæsilegur. Ævistarfið skilaði Íslendingum í fremstu röð og unga fólkið nýtur nú ávaxtanna, getur lagt veröldina að fótum sér því heimanmundurinn reyndist drýgri en bjartsýnustu menn þorðu að vona."

 

 

Þarf að bæta úr brýnni þörf

Forsetinn heldur áfram um kjör aldraða:

"Margt hefur vel verið gert á þessu sviði og við hjónin höfum í heimsóknum okkar víða um land séð glæsileg og vel búin húsakynni, hitt áhugasamt starfsfólk sem kappkostar að auðga líf heimilismanna. Engu að síður skortir enn verulega að bætt hafi verið úr brýnni þörf."

Síðan segir forsetinn:



"Hér þurfa allir að leggjast á árar, Alþingi og sveitarstjórnir, hagsmunasamtök og atvinnulífið, sameinast um að finna lausn á brýnum vanda og skilja engan útundan í þessum efnum. Verkefnið er hafið yfir allan ágreining enda þakkarskuldin söm og jöfn hvar í flokki sem menn standa."

 

Alþjóðleg tengsl mikilvæg

Í ræðu sinni kom forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, einnig að mikilvægi alþjóðlegra samskipta.

"Sambandið við Indland og Kína auðveldar íslensku athafnafólki að ná forystu á heimsmarkaði eins og mörg íslensk fyrirtæki hafa raunar þegar gert og fróðlegt er að kynnast því að Kínverjar og Indverjar kjósa oft frekar að eiga íslensk fyrirtæki að bandamönnum í markaðssókn til annarra landa en að binda trúss sitt við stórfyrirtæki í Evrópu eða vestan hafs. Í þessum efnum veitir smæðin okkur forskot, sérstöðu sem úrslitum ræður."

Ræðu forsetans má nálgast hér

 

 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×