Innlent

Hæstiréttur staðfestir dóm fyrir fíkniefnasmygl

Hæstiréttur dæmdi í dag karlmann á sextugsaldri, Romanas Strabeika, í þriggja ára fangelsi fyrir smygl á tæpum fjórum kílóum af metaamfetamíni. Maðurinn smyglaði fíkniefnunum ásamt félaga sínum í bíl með Norrænu en þeir komu til landsins í júní á síðasta ári. Efnið höfðu þeir falið í sér útbúnu geymsluhólfi í járnbita í undirvagni bílsins en talið er að það hafi verið ætlað til söludreyfingar hér á landi. Mennirnir, sem báðir eru frá Litháen,  voru síðan dæmdir í Héraðsdómi Austurlands í þriggja ára fangelsi en félagi mannsins ákvað að áfrýja ekki dómnum.

Í dómnum kemur fram að ósamræmis hafi gætt í framburði mannanna fyrir dómi sem og hjá lögreglu. Þeir sögðu í fyrstu ekkert kannast við að fíkniefnin væru falin í bílnum en hvorugur þeirra gat gefið haldbærar skýringar á hver væri eigandi bílsins eða efnisins. Mennirnir hafa setið í gæsluvarðhaldi síðan 1. júlí á síðasta ári og mun sá tími koma til frádráttar refsingunni. Romanas mun auk þess þurfa að greiða málsvarnarlaun verjanda sinna, tæpar 500.000 krónur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×