Innlent

Bræðsluofn frá fyrrihluta 17. aldar í Steingrímsfirði

Hátt í 400 ára múrsteinshlaðinn bræðsluofn fannst við fornleifauppgröft í Hveravík við Steingrímsfjörð. Fréttavefurinn www.strandir.is greinir frá þessu. Tilgátur eru um að tóftir á Strákatanga við Steingrímsfjörð séu leifar eftir baskneska hvalfangara og styður þessi fundur við þá kenningu sem og munir sem fyrr höfðu fundist.

Strandagaldur og Náttúrustofa Vestfjarða hafa unnið að uppgreftri á Strákatanga og nú helst þar sem bræðslan er talin hafa staðið. Bræðsluofninn sem fannst nýverið er rétt um fimm metrar í þvermál.

Hugmyndir hafa komið upp um að markaðssetja Steingrímsfjörð sem miðstöð hvalaskoðunar af landi. Hvalagengd hefur verið talsverð inn í fjörðinn undanfarið og eru menn iðnir við að tilkynna hvali á undirsíðu af síðu Galdrasýningarinnar á Hólmavík. Þar má sjá að síðast sást hvalur þann 18. október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×