Innlent

Varnarmálin rædd

Utanríkismálanefnd Alþingis situr nú á fundi þar sem Geir Haarde, utanríkisráðherra gerir henni grein fyrir útkomunni í viðræðulotunni um varnarmál við Bandaríkjamenn í fyrradag.

Síðan hlé var gert á viðræðunum við Bandaríkjamenn á fimmtudag hefur ríkt þögn um hvað þar fór fram - hvað fjölmenn sendinefnd borðumprýddra herforingja lagði á borðið sem tillögu um framtíðarvarnir landsins. Geir Haarde utanríkisráðherra var fjarri góðu gamni - á fundi með öðrum utanríkisráðherrum NATO ríkja í Búlgaríu. Þar ræddu menn Íraksdeiluna og önnur stórmál heimsins - en ekkert um þá vá sem skilgreind er fyrir dyrum á íslandi þegar landið verður loftvarnarlaust nú innan tíðar - að óbreyttu. Íslandsmál voru þó á dagskrá í París á sama tíma þar sem Franski varnarmálaráðherrann stillti upp heiðursverði fyrir Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra og velti upp möguleikanum á auknum flotaumsvifum frakka í grennd við ísland. Frakkar hafa verið gjarnir á að benda á hversu óáreiðanlegir Bandaríkjamenn eru sem bandamenn og efalaust má sjá síðasta útspil þeirra gagnvart íslendingum í því ljósi. En nú eftir hálfa klukkustund verður þögnin rofin og utanríkismálanefnd fær að vita hvaða staða er uppi á samningaborðinu með bandaríkjamönnum. Telja verður líklegt að utanríkisráðherra geri þjóðinni einnig grein fyrir stöðu mála þegar fundi lýkur.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×