Lífið

Allir í startholunum fyrir Slóð fiðrildanna

Ólafur Jóhann Ólafsson skrifaði uppkast að handriti sem leikstjórinn Liv Ullmann tók síðan við.  Aðstandendur myndarinnar vildu ekki taka neina áhættu og var myndinni frestað um hálft ár.
Ólafur Jóhann Ólafsson skrifaði uppkast að handriti sem leikstjórinn Liv Ullmann tók síðan við. Aðstandendur myndarinnar vildu ekki taka neina áhættu og var myndinni frestað um hálft ár.

Eins og greint var frá í Fréttablaðinu fyrir nokkru frestuðust tökur á stórmyndinni A Journey Home vegna handritavandamála en myndin er byggð á skáldsögu Ólafs Jóhanns Ólafssonar. Þær sögur gengu fjöllum hærra að aðalleikkona myndarinnar, Óskarsverðlaunahafinn Jennifer Connelly, væri ósátt við handritið en það segir Kristinn Þórðarson hjá Saga Film, sem framleiðir myndina, vera fjarri sanni.

„Því er hins vegar ekki að neita að það þurfti að vinna aðeins í handritinu og laga ákveðna hluti," útskýrir Kristinn. „Connelly setti ekki fram neinar athugasemdir en það voru skiptar skoðanir á milli leikstjórans Liv Ullmann og framleiðenda myndarinnar. Hins vegar voru allir sammála um að vinna aðeins betur í handritinu og því var ákveðið að vera ekki að ana neinu," bætir Kristinn við. Upphaflega skrifaði Ólafur Jóhann handrit að myndinni en síðan tók Liv Ullmann við því og er handritið því nokkurs konar samstarfsverkefni þeirra á milli.

Samkvæmt upphaflegri áætlun var gert ráð fyrir að tökur hæfust nú í október en þeim hefur verið frestað fram á næsta ár. Ástæðan fyrir þessari miklu töf er ákaflega einföld að sögn Kristins en A Journey Home gerist að sumri til og því var ekki hægt að fara í tökur nú þegar vetur konungur er á næsta leiti. „Við bíðum bara í startholunum og förum aftur af stað í mars eða apríl og byrjum að ráða til okkar leikara í önnur hlutverk," segir Kristinn en eins og kunnugt er mun eiginmaður Connelly, breski gæðaleikarinn Paul Bettany, leika á móti spúsu sinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.