Lífið

Landsleikur jaðarpoppara

Emilíana Torrini ætlar að reyna fyrir sér í fótbolta í dag.
Emilíana Torrini ætlar að reyna fyrir sér í fótbolta í dag.

Skoska hljómsveitin Belle and Sebastian og íslenska hljómsveitin múm munu efna til knattspyrnuleiks í dag. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hljómsveitirnar reyna fyrir sér í knattspyrnu en Belle and Sebastian lagði múm að velli með tíu mörkum gegn átta í framlengdum leik sem fram fór í Japan fyrir þremur árum.

"Við höfum stillt þessu upp sem hálfgerðum landsleik, Ísland á móti Skotlandi. En þar sem þau eru bara fjögur úr Belle and Sebastian hér á landi býst ég við að við lánum þeim nokkra leikmenn. Svo held ég að Emilíana Torrini og hljómsveit ætli líka að spila með," segir Kristín Valtýsdóttir, meðlimur múm.

Auk Emilíönu Torrini og félaga ætlar litli bróðir Kristínar að spila með sem og vinur hans. "Litli bróðir minn heitir Jónas og er níu ára. Hann er búinn að panta að fá að vera fyrirliði í öðru hvoru liðinu," segir Kristín sem veit þó ekki hvort hægt sé að kalla múm-liða íþróttamenn. "Við erum stundum uppátækjasöm og ef það má flokka það undir íþróttir erum við kannski íþróttamenn."

Síðast þegar liðin áttust við hafði múm betur eftir venjulegan leiktíma. Hljómsveitarmeðlimum þótti leikurinn hins vegar svo skemmtilegur að þeir ákváðu að framlengja og þá unnu meðlimir Belle and Sebastian. "Þannig að það hefur eiginlega aldrei fengist úr því skorið hverjir unnu leikinn," segir Kristín. Leikurinn í Japan fór fram um kvöld og tók eina þrjá tíma. Leikvöllurinn var lýstur upp með ljóskastara og hljóp sumum leikmanna Múm svo mikið kapp í kinn þegar lið þeirra lenti undir að þeir renndu sér jafnvel í háskalegar tæklingar. "Stundum er gaman að taka óalvarlegum hlutum alvarlega og öfugt - taka alvarlegum hlutum óalvarlega," segir Kristín sposk en auk knattspyrnunnar reyndu hljómsveitirnar með sér í fatafrisbí þar sem leikmenn þurftu að fækka fötum ef þeir misstu flugdiskinn sem þeir köstuðu á milli sín.

Ekki er búið að ákveða hvar eða hvenær leikurinn í dag verður. "Kannski spilum við bara á einhverjum velli úti á Ægissíðu en það verða engir flottir búningar eða svoleiðis," segir Kristín, knattspyrnukona með meiru.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.