Lífið

Byrjuðu á sveitaballi

Hljómsveitin Æla gaf út fyrstu plötu sína fyrir skemmstu. Frá vinstri eru Ævar gítarleikari, Haffi trommari, Sveinn bassaleikari og Halli Valli söngvari.
Hljómsveitin Æla gaf út fyrstu plötu sína fyrir skemmstu. Frá vinstri eru Ævar gítarleikari, Haffi trommari, Sveinn bassaleikari og Halli Valli söngvari. MYND/Hrönn

Hljómsveitin Æla sendi frá sér fyrstu plötu sína fyrir skemmstu. Platan ber nafnið "Sýnið tillitssemi, ég frávik," og er gefin út af sjálfum Rúnari Júlíussyni í Geim­steini. Það er kannski ekki skrýtið enda eru meðlimir Ælu úr Keflavík og Sandgerði.

"Æla hefur starfað í þrjú ár með hléum. Bandið var stofnað til að spila í hléi á sjómannadagsballi með hljómsveitinni Spútnik. Okkur var boðinn kassi af bjór og sömdum því fimm lög fyrir þetta. Það voru fleiri að dansa hjá okkur en Spútnik," segir Sveinn Helgi Halldórsson, bassaleikari Ælu. Hljómsveitin spilar pönkskotið rokk og hefur verið líkt við The Rapturee og Purrk Pillnikk meðal annarra.

Plata Ælu var tekin upp "læv" á tveimur dögum í litlu herbergi í Keflavík. Sveinn segir að þessir tveir dagar hafi bæði einkennst af fylleríi og þynnku. "Það sem þú heyrir er það sem við spiluðum. Við vildum ná spilagleðinni sem einkennir bandið og það var geggjað sánd í þessu herbergi."

Aðspurður segir Sveinn að stefnan sé nú að spila á eins mörgum tónleikum og hægt er á næstunni. Þeir hafi svo heilmikinn áhuga á því að fara til útlanda og spila. Eitt lag þeirra hefur þegar verið gefið út á sjötommu hjá litlu plötufyrirtæki í Englandi. Í dag og kvöld gefst svo frábært tækifæri á að berja Ælu augum því sveitin leikur á tvennum tónleikum. Þeir fyrri eru í Smekkleysubúðinni á Laugavegi 59 klukkan 17.00. Sveinn segir að Æla ætli þá að leika 20 mínútna djassverksspuna. Klukkan 21.30 leikur Æla svo á tónleikum á Café Amsterdam ásamt keflvísku sveitinni Koju og reykvísku sveitinni Weapons. 500 krónur kostar inn á þá tónleika.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.