Innlent

Vill að ráðherrar og þingmenn fái sömu lífeyrisréttindi og aðrir ríkisstarfsmenn

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna og formaður BSRB.
Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna og formaður BSRB. MYND/Gunnar V. Andrésson

Ögmundur Jónasson, þingmaður og formaður BSRB vill að ráðherrar og þingmenn fái sömu lífeyrisréttindi og aðrir ríkisstarfsmenn. Hann ætlar samt sem áður að styðja frumvarp um Kjararáð sem nú liggur fyrir.

Frumvarpið hefur fengið mikla gagnrýni, meðal annars frá Alþýðusambandi Íslands. Kjararáði er ætlað að taka við lutverki Kjaradóms og kjaranefndar sem hingað til hafa meðal annars ákvarðað starfskjör þingmanna, ráðherra, forseta og dómara ásamt ýmsum embættismönnum sem gegna störfum sem ekki fylgir samnings- eða verkfallsréttur vegna eðlis starfanna.

Alþýðusamband Íslands sendi frá sér umsögn um frumvarpið í gær en þar segir að ýmislegt sé fært til betri vegar varðandi ákvarðanir um launakjör æðstu embættismanna en það dugi þó ekki til. Segir sambandið ótækt að Alþingi haldi áfram ákveða tiltekin hluta starfskjara sinna, eins og lífeyrisréttindi.

Þessu er Ögmundur ekki sammála. Alþingi sé ábyrgt fyrir þeirri ákvörðun sem tekin hafi verið um lífeyrisréttindi þingmanna og ráðherra. Alþingi þurfi að rífa þau lög upp með rótum og setja Alþingismenn inn í þá lífeyrissjóði sem landsmenn tilheyri.

Eins og fram kom í fréttum NFS í gær þá sýna útreikningar Samtaka atvinnulífsins að ráðherra sem situr í 12 ár á stóli ávinnur sér lifeyrisréttindi sem jafngildir 90 milljóna króna starfslokasamning umfram það sem almennur iðgjaldagreiðandi fær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×