Erlent

Heimferðin er ekki tryggð

Bandaríski milljónamæringurinn Gregory Olsen varð í gær þriðji maðurinn sem kaupir sér far út í geiminn. Hann var um borð í rússnesku Soyuz-geimfari sem skotið var út í himingeiminn frá geimferðastöðinni í Baikonur í Kasakstan. Auk Olsens eru um borð geimfararnir William McArthur, frá Bandaríkjunum, og Valey Tokarev, frá Rússlandi. Förinni er heitið til alþjóðlegu geimstöðvarinnar sem sveimar á sporbaug um jörðu. Olsen mun snúa aftur eftir nokkra daga með tveimur geimförum sem dvalið hafa í stöðinni síðasta hálfa árið og hinir tveir geimfararnir munu leysa af hólmi. Rússnesk yfirvöld segjast hins vegar ekki geta ábyrgst flutning heim á McArthur næsta vor nema bandaríska geimferðastofnunin NASA fjármagni geimferðina. NASA er í vanda að þessu leyti því bandarísk lög banna að stofnunin taki þátt í slíku. Bandaríkjamenn geta ekki sótt geimfarann sjálfir þar sem hætt hefur verið við geimskutluáætlunina um óákveðinn tíma eftir erfiðleika geimferjunnar Discovery í sumar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×