Erlent

Baugur í Berlingske Tidende

Dagblaðið Berlingske Tidende gerði Baugsmálinu góð skil í lok síðustu viku. Blaðið ræðir umfjöllun fjölmiðla um málið en einnig bendir það á tengsl Davíðs Oddssonar, fyrrverandi forsætisráðherra, við framvinduna. "Gagnárás Baugs" er fyrirsögn Berlingske Tidende á grein sem birtist í fyrradag þar sem segir að "ásakanir um fjárkúganir, morðhótanir og samsæri fylli nú alla fjölmiðla á Íslandi." Þar er sagt frá atburðarás síðustu daga og tengsl helstu málsaðila. Greinilegt er á greinarhöfundi að honum þykir málið nánast farsakennt þótt hann taki enga afstöðu með neinum sem aðild eiga að því. "Guðfaðir samsærisins" - sem tengist ritstjóranum [Styrmi Gunnarssyni], framkvæmdastjóranum [Kjartani Gunnarssyni] og lögfræðingi Sullenbergers [Jóni Steinari Gunnlaugssyni] er sagður hinn voldugi forsætisráðherra Íslands í tólf ár, Davíð Oddsson. Rifjað er upp að Davíð reyndi að setja lög sem bannað hefðu "yfirráð Baugs yfir fjölmiðlum" en forseti Íslands "hvers börn vinna hjá Baugi" neitaði að staðfesta þau. Jafnframt er sagt frá því að eftir að hafa staðið fyrir einkavæðingu ríkisbankanna hafi Davíð kvartað yfir útlánagleði þeirra og farið með "hópi fjölmiðlamanna í KB banka til að taka út eigin innistæðu".



Fleiri fréttir

Sjá meira


×