Erlent

Sprengjutilræði á Balí

Minnst þrjátíu manns létu lífið og um hundrað særðust í tveimur sprengjutilræðum á Kuta-ströndinni á ferðamannaeynni Balí í Indónesíu í dag. Meðal þeirra sem létust voru vestrænir ferðamenn. Sprengjurnar sprungu með stuttu millibili á tveimur kaffihúsum á Kúta-strönd sem eru vinsæl meðal ferðamanna á staðnum. Í fyrstu var talið að allt að fjórar sprengjur hefðu sprungið, en yfirvöld á Balí hafa staðfest að þær voru tvær. Mikil skelfing greip um sig á staðnum, bæði meðal heimamanna og ferðamanna, og hljóp fólk út á götur þar sem mikil ringulreið ríkti. Flestir þeirra sem létu lífið í sprengingunum voru vestrænnir ferðamenn. Forseti Indónesíu fordæmdi sprengingarnar og sagði þær grimmdarverk. Ekki er vitað hverjir bera ábyrgð á verknaðinum, en enn sem komið er hefur engin lýst ábyrgð á hendur sér. Yfirvöld á Indónesíu hafa hins vegar varað við því um nokkurt skeið að frekari árásir hryðjuverkasamtakanna Jemahh Islamiah kynnu að vera yfirvofandi, en samtökin eru tengd Al-kæda. Þrjú ár eru liðin frá því hryðjuverkasamtökin sprengdu tvo næturklúbba á Kúta-strönd í loft upp, með þeim afleiðingum að tvö hundruð og tveir, aðallega vestrænir ferðamenn, létu lífið. Ferðamannaiðnaðurinn á Balí hrundi í kjölfar þeirra tilræða, en að undanförnu hafði ferðamönnum þar fjölgað verulega. Óttast er að árásirnar í dag setji strik í reikninginn og hafi slæm áhrif á ferðamannastrauminn til eyjarinnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×