Erlent

Fjórða hvert barn í hættu

Eitt af hverjum fjórum fæddum börnum í heiminum er í hættu vegna sjúkdóma sem hægt væri að koma í veg fyrir með einfaldri bólusetningu. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. Samkvæmt skýrslu Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, Unicef, er talið að ein komma fjórir milljónir barna undir fimm ára aldri deyi af völdum sjúkdóma, sem hægt hefði verið að koma í veg fyrir með einfaldri bólusetningu. Bólusetning kemur í veg fyrir dauðsföll um tveggja milljóna barna á hverju ári og þegar ný bóluefni, til dæmis gegn niðurgangi, verða aðgengileg, er talið að hægt sé að bjarga lífi rúmlega milljón barna til viðbótar. Rúmlega tíu milljónir barna undir fimm ára deyja árlega og er talið að hægt væri að koma í veg fyrir tvo þriðju þessara dauðsfalla með einfaldri bólusetningu. Helstu dánarorsakir nýfæddra barna eru mislingar, lungnabólga, kíghósti og stífkrampi. Í rúmlega hundrað löndum eru níu af hverjum tíu börnum bólusett. Í skýrslu Unicef, segir að samt sem áður sé árangur í sjötíu og fjórum löndum ekki nógu góður til að þau geti náð settum markmiðum, en á sérstöku barnaþingi Sameinuðu þjóðanna árið 2002 skuldbatt alþjóðasamfélagið sig til að tryggja að að minnsta kosti 90% barna undir eins árs aldri fengju reglulegar bólusetningar fyrir árið 2010. Ann Veneman, framkvæmdastjóri Unicef, segir að bólusetning sé áhrifaríkasta og ódýrasta leiðin til að bjarga lífi barna og því sé brýnt að halda í þann árangur sem náðst hafi í mörgum löndum og auka hann í öðrum. Skýrsla Unicef sýnir að mikill mismunur er á aðgengi barna að slíku. Árið 2003 voru 90% barna í iðnríkjunum bólusett. Aðeins um helgmingur barna í vestur og mið Afríku er bólusettur reglulega, og hefur slíkt aukist mikið í mörgum fátækum ríkjum, þótt betur megi ef duga skal. Þannig voru 84% barna í Eritreu bólusett árið 2003, miðað við 18% árið 1990. Unicef útvegar bóluefni til meira en 40% barna í heiminum og árlega fer fjórðungur útgjalda Barnahjálparinnar í slíkt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×