Innlent

Fyrsta íslenska fluguveiðihjólið

Fyrsta íslenska fluguveiðihjólið kemur á markað í vor og er sérhannað fyrir hinn sterka íslenska lax. Heiti hjólsins tengist veiðivon og hjátrú.  Hjólið heitir „Wish“ er þar vísað í óskhyggju, bjartsýni og vonir veiðimannsins sem fylgir honum í hverja veiðiferð. Einnig er hljómi nafnsins ætlað að vísa til norna og hjátrúar en óhætt er að segja að fáir hópar séu hjátrúarfyllri en veiðimenn. Það er fyrirtækið 3 X Stál sem á Rennex sem framleiðir hjólið. Þetta er fyrsta og eina íslenska fluguveiðihjólið sem til er. Jóhann Jóhannsson framkvæmdastjóri segir hann og félaga sína hafa gangið með hugmyndina í maganum í fjölda ára. Í kjölfarið á kaupum þeirra á fullkominni framleiðsluvél fyrir rúmum tveimur árum hafi svo verið ákveðið að ráðast í verkið.   Að sögn Jóhanns er búið að prófa hjólið og veiddust vel á annað hundrað laxa á svona hjól síðasta sumar. Hann segir að hjólið komi á markað með vorinu og ætlunin sé að flytja það út. Og hann segir hjólið hafa ýmislegt fram yfir önnur hjól, t.d. sérstakt efnisval og sterkan bremsubúnað, sérhannaðan fyrir hinn sterka íslenska lax.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×