Innlent

Verklagsreglur vegna hermannaveiki

Umhverfisráð Reykjavíkurborgar hyggst setja verklagsreglur til að koma í veg fyrir útbreiðslu hermannaveiki, að sögn Katrínar Jakobsdóttur varaformanns ráðsins. Á nýafstöðnum fundi ráðsins var farið yfir stöðu hermannaveiki hér á landi. Tilefnið var síðasta tilfelli veikinnar sem kom upp í ágúst. Þá reyndist vera baktería, sem veldur hermannaveiki, í sýni sem tekið var úr vaski á vinnustað í Reykjavík. Rekstraraðili stofunnar sem er eini starfsmaðurinn veiktist alvarlega af hermannaveiki. Mun þetta vera í fyrsta sinn sem heilbrigðiseftirlitinu tekst að rækta hermannaveikibakteríu sem greind er af sömu tegund í umhverfi sjúklings og ræktast hafði úr honum. Maðurinn var að mæta til vinnu eftir alllangt hlé þegar hann sýktist. Er talið að veiran hafi leynst í rörum eða krana, þar sem vatn hafði ekki verið notað um hríð. "Því var velt upp hvort við ættum ekki að athuga reglur hér og þar í heiminum, þar sem fyrirskipuð er útskolun úr vatnsleiðslum í skólum og leikskólum eftir jólafrí og sumarfrí, svo dæmi séu tekin," segir Örn Sigurðsson, skrifstofustjóri umhverfissviðs Reykjavíkurborgar. "Verkefni okkar á umhverfissviði er að koma með tilögur um reglur eftir að hafa athugað hvernig systursamtök okkar á Norðurlöndunum taka á þessum málum. Þá eru ákveðnar vísbendingar frá Bretlandi um hvernig menn haga sér gagnvart hermannaveiki. Við munum safna þessum upplýsingum saman og málið verður síðan tekið fyrir aftur í umhverfisráði, væntanlega seint á þessu ári. Þá verður lögð fram tillaga, greinargerð og rökstuðningur um viðbrögð umhverfissviðs." Örn segir að þegar komi upp grunur um hermannaveiki sé umhverfissvið í samvinnu við sóttvarnarlækni landlæknisembættisins um sýnatöku, þar sem reynt er að grafast fyrir um upptök veikinnar. Katrín Jakobsdóttir segir að reglurnar verði kynntar fyrirtækjum og stofnunum þar sem hætta sé á að bakterían geti leynst í krönum og blöndunartækjum eftir starfshlé. Hermannaveikin



Fleiri fréttir

Sjá meira


×