Sport

Hafa borgað 25 milljónir til Vals

Hlutafélagið Valsmenn hf., sem festi kaup á byggingarétti á svæði Vals að Hlíðarenda fyrir 856 milljónir fyrir skömmu, er fimm ára gamalt. Félagið samanstendur af 438 hluthöfum, sem allir eru Valsmenn, og er eigið fé félagsins um 50 milljónir króna. Brynjar Harðarson, stjórnarformaður félagsins, sagði í samtali við Fréttablaðið að félagið hefði komið að margvíslegri fjárfestingastarfsemi síðan það var stofnað. "Markmið félagsins er að styðja við bakið á Knattspyrnufélaginu Val og það hefur gengið vel hjá okkur. Það er samt rétt að taka það fram að við komum á engan hátt nálægt rekstri deidlanna hjá Val. Ef það væri raunin þá væri hlutafélagið væntanlega farið á hausinn," sagði Brynjar. Hann sagði aðspurður að hlutafélagið væri búið að láta íþróttafélaginu um 25 milljónir í té á undanförnum fimm árum. "Ég er ekki með skiptinguna á milli í deilda í kollinum en fótboltinn hefur fengið mest og síðan handboltinn þar á eftir," sagði Brynjar sem sagðist allt eins búast við því að hlutafélagið myndi á einhvern hátt rétta hjálparhönd í þeirri viðleitni Valsmanna við að festa knattspyrnulið sitt í sessi í Landsbankadeild karla en félagið vann sér þátttökurétt í deildinni síðastliðið haust og hefur þeyst á milli deilda undanfarin ár. Meðal þekktra manna í hluthafahópi Valsmanna hf. eru lögfræðingurinn og fyrrum atvinnumaðurinn Guðni Bergsson, skartgripasalinn Sævar Jónsson, rithöfundurinn Þorgrímur Þráinsson, handboltakapparnir Geir Sveinsson og Valdimar Grímsson og fjölmiðlamaðurinn Hermann Gunnarsson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×