Innlent

Blaðið kemur út á morgun

Blaðið, nýtt dagblað, lítur dagsins ljós á morgun. Því verður dreift inn á 75 þúsund heimili og vinnustaði. Það er útgáfufélagið Ár og dagur sem gefur blaðið út og verður því dreift ókeypis á höfuðborgarsvæðinu til að byrja með en möguleikar eru á enn meiri dreifingu. Blaðinu verður dreift með Íslandspósti. Að sögn stjórnarformanns útgáfufélagsins, Sigurðar G. Guðjónssonar, verður blaðið fréttablað með almennum fróðleik en hann segir að áherslur verði aðrar en fyrir eru. Blaðið sér frjálst og óháð, skrifað af gamalreyndum og nýjum blaðamönnum þannig að hann telji að blaðið verði allt öðruvísi en þau sem séu fyrir. Í dag var unnið baki brotnu að fyrsta blaðinu, en eins og fyrr segir verður því dreift ókeypis og það er því fjármagnað með auglýsingum. Sigurður segir að blaðið hafi selt margar auglýsingar og þá sé fyrirtækið ágætlega fjármagnað með hlutafé. Karl Garðarsson, fyrrverandi fréttastjóri Stöðvar 2, er ritstjóri blaðsins til að byrja með. Að sögn Sigurðar telja útgefendurnir pláss fyrir nýtt blað á markaðnum og segja dreifinguna tryggða. 80 þúsund eintök verði prentuð og þeim dreift inn á um 75 þúsund heimili og vinnustaði. Hægt verði að stækka dreifingarsvæðið mjög hratt vegna samnings við Íslandspóst.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×