Innlent

Olíugjaldið eykur kostnað

Lög um olíugjald gengu í gildi um mánaðamótin en við það féll niður þungaskattur á dísilbifreiðum undir tíu tonnum og greiða eigendur þeirra í staðinn olíugjald sem er reiknað inn í verð á dísilolíu. Hækkaði verðið á dísil umtalsvert af þessum sökum, upp í tæplega 110 krónur. Leigubifreiðar eru flestar dísilknúnar og reikna bifreiðastjórar með að breytingin muni auka rekstrarkostnað hjá sér að jafnaði um 400.000 krónur á ári. Að sögn Guðmundar Barkar Thorarensen, framkvæmdastjóra BSR, þyrfti að hækka taxtann um fimmtán prósent til að brúa það bil en til þess þarf reglugerðarbreytingu hjá samgönguráðuneytinu. "Við viljum hins vegar ekki hækka taxtann svo mikið heldur vonum við að hið opinbera komi til móts við okkur á einhvern hátt." Í dag fá leigubílstjórar hluta vörugjalda á bílum sínum felld niður en Guðmundur segir bílstjóra hafa rætt um að fá þau niðurfelld með öllu til að vega upp á móti lagabreytingunni. Auk þess vilja þeir geta selt bíla sína eftir átján mánuði í stað 36 mánaða án þess að þurfa að endurgreiða niðurfellda gjaldið. Fallist ráðuneytið á þessa útfærslu þyrfti einungis að hækka taxtann um fimm prósent. Strætó bs. þarf í dag ekki að greiða nema hluta þungaskatts og því býst Hörður Gíslason, fjármálastjóri fyrirtækisins, við að eftir breytinguna muni það fá hluta olíugjaldsins endurgreiddan. "Mér sýnist samt að nokkur kostnaðarauki sé af innheimtu gjaldsins fyrir okkur vegna aukinnar fjárbindingar." Þótt ekki hafi verið fullrætt hvernig honum verður mætt segir Hörður að í augnablikinu séu engar líkur á fargjaldahækkunum. Fyrirtæki í vöruflutningaþjónustu reikna með að kostnaður vegna eldsneytiskaupa muni aukast vegna breytingarinnar. "Þetta verður kostnaðarauki á þessum styttri áætlunarleiðum þar sem menn eru ekki að aka með tengivagn og bíl," segir Óskar Óskarsson, framkvæmdastjóri innanlandssviðs Landflutninga-Samskipa. "Svo svo er bara spurning hvort við getum hagrætt á móti svo þetta þurfi ekki að fara út í verðskrána."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×