Innlent

Heimsóknin heldur áfram

Taívanska sendinefndin sem kom hingað til lands síðdegis í gær, með utanríkisráðherra landsins þar á meðal, hélt óformlegri heimsókn sinni áfram í dag. Eins og fram kom í gær eru Kínverjar æfir yfir heimsókninni, hvort sem hún telst óformleg eða ekki. Hafa þeir jafnvel hótað því að rifta viðskiptasamningum við Ísland sem gerðir hafa verið nýlega og spilla fyrir íslenskum hagsmunum á alþjóðavettvangi. Hermann Ottósson hjá Útflutningsráði vildi ekki gefa upp hvenær væri von á hópnum þangað. Hann sagði Útflutningsráð einfaldlega vera að uppfylla skyldur sínar, sendinefndinni yrðu kynnt helstu atriði í utanríkisverslun Íslendinga í 30 til 40 mínútna erindi. Það væri daglegt brauð og skipti litlu hvaðan hópar sem þessa óskuðu kæmu. Íslendingar eiga viðskipti við bæði Kínverja og Taívana fyrir á annan tug milljarða á ári. Í fyrra fluttu Íslendingar út vörur til Taívans fyrir 1,2 milljarða króna sem er heldur meira en andvirði útflutnings til Kína, en hann var rúmlega 1,1 milljarður. Hingað til lands voru hins vegar fluttar vörur frá Kína fyrir tæpa tíu milljarða króna í fyrra en einungis fyrir rúmlega einn og hálfan milljarð frá Taívan.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×