Innlent

Kvikmyndun á Reykjanesi

Það er mikil öryggisgæsla í kringum þau svæði þar sem unnið er að kvikmyndinni á Suðurnesjum og ekki fæst leyfi til að fara og skoða herlegheitin. Í rammahúsinu í Reykjanesbæ er unnið að gerð leikmyndar fyrir kvikmyndina, auk þess sem verið er að gera við herbíla og önnur stríðstól sem notuð verða. Þar var einnig verið að þjálfa Íslendinga sem munu leika hermenn í kvikmyndinni, en þjálfun þeirra fer meðal annars fram í sundlauginni í Reykjanesbæ. Í Sandvík, þar sem hluti kvikmyndarinnar verður tekin, er einnig verið að koma upp ýmsum búnaði. Einn þeirra fjölmörgu Íslendinga sem koma að undirbúningi myndarinnar er Tómas J. Knútsson kafari í Keflavík. Hann sér um að redda öllum mögulegum og ómögulegum hlutum. Tómas segist sjá til þess að allt gangi upp og þá aðallega það sem hefur með sjóinn að gera. Hann reddar varhlutum og græjum í 60 ára gömul stríðstól og segir það erfiðast. Þeir sem vinna að kvikmyndinni eru bundnir þagnarskyldu, en Tómas var að sjálfsögðu spurður að því hvort Clint Eastwood hafi eitthvað verið á svæðinu. Hann hafði ekki hugmynd um það og heldur ekki hvenær hann kæmi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×