Innlent

Mæling Hvannadalshnjúks bíður

Í öllum kennslubókum og alfræðiritum stendur skrifað að Hvannadalshnjúkur sé hæsti tindur Íslands, 2119 metrar. Það er óumdeilt að hann er hæstur tinda, en ekki eru allir vissir um að hæðin sé rétt mæld. Nú á að skera úr um það með nákvæmustu mælitækjum sem til eru. Hnjúkurinn var mældur 2119 metrar árið 1904 með svokallaðri þríhyrningsmælingu. Síðan hafa verið gerðar nokkrar mælingar með ýmsum aðferðum sem sýna frá 2.111 metrum upp í 2.123. Mælingin nú er samvinnuverkefni Landmælinga Íslands (LMÍ), Jarðvísindastofnunar Háskólans og Landhelgisgæslunnar sem ferjar mælitækin upp á jökulinn. En hvernig verður farið að því að mæla hæðina nákvæmlega? Þórarinn Sigurðsson, forstöðumaður mælingasviðs LMÍ, segir að notuð sé GPS-tækni þar sem mælistöður séu skráðar niður í tvo sólarhringa til að fá nákvæmni. Aðspurður hvort þetta sé 100% nákvæmni segir Þórarinn svo vera - en svo megi deila um hver nákvæmnin verður. Hann segir að ef það takist að mæla í tvo sólarhringa megi jafnvel búast við að hæðin fáist með sentímetra nákvæmni. Til stóð að þyrla Landhelgisgæslunnar færi fyrstu ferð upp á jökul frá Skaftafelli klukkan tíu í morgun en þar sem hún var kölluð út í nótt gat áhöfnin ekki mætt aftur til vinnu fyrr en klukkan eitt; þá hefði ekki verið hægt að komast upp eftir fyrr en undir kvöld og vafamál hvort náðst hefði að koma öllum tækjum fyrir á sínum stað. Þórarinn var mjög svekktur yfir því að komast ekki upp í dag en segir ekkert við því að gera. Útköll Landhelgisgæslunnar séu brýnni en þetta verkefni. Þórarinn segir að búist sé við því að hnjúkurinn sé á bilinu 2110-2112 metrar en hann óskar þess samt að hann sé hærri en skráð hæð í dag, 2119 metrar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×