Erlent

Íraksstríð upphaf lýðræðisbylgju?

Stríðið í Írak var frá upphafi umdeilt og alþjóðlegar deilur um réttmæti þess hafa staðið undanfarin tvö ár eða svo. En nú er svo komið að jafnvel hörðustu gagnrýnendur stríðsrekstursins hugsa sitt mál og velta því óhugsanlega fyrir sér hvort stríði hafi verið besta mál. Ástæða þessara vangaveltna eru atburðir undanfarinna vikna, frá kosningunum í Írak í lok janúar. Þvert á hrakspárnar flykktust Írakar á kjörstaði og virtust fúsir að leggja líf og limi í hættu til þess að taka þátt í lýðræðislegum kosningum - hafa eitthvað um framganginn í eigin heimalandi að segja. Í kjölfarið er sem bylgja lýðræðiskennda fari um Miðausturlönd, öllum að óvörum. Á sjálfsstjórnarsvæðum Palestínumanna fóru fram forsetakosningar og lýðræðislegir straumar gera þar vart við sig. Skammt þar frá, í Líbanon, var morðið á Rafik Hariri, fyrrverandi forsætisráðherra, kornið sem fyllti mælinn og fólk þar lét kröftulega í sér heyra á götum úti, áhrifavöldunum í Sýrlandi til mikillar furðu. Raunar gætir áhrifa þess sem um er að vera í Líbanon í Sýrlandi. Í Egyptalandi sá Hosni Mubarak forseti sér skyndlega vænst að heimila mótframboð við sig í forsetakosningum síðar á þessu ári. Mubarak hefur ekki sýnt hugsanlegum mótherjum neina linkind þann tæpa aldarfjórðung sem hann hefur verið við völd. Meira að segja í Sádi-Arabíu virðist sem almenningur fái nú í vaxandi mæli að taka þátt í vali ráðamanna. Þar verða frambjóðendur leyfðir í héraðskosningum síðar í þessum mánuði og talsmenn stjórnvalda segja að á næsta ári fái meira að segja konur að kjósa og að bjóða sig fram. Í Washington og víðar eru þessar hreyfingar túlkaðar sem svo að stríðið í Írak hafi hreyft við misspilltum og ólýðræðislegum stjórnmálamönnum í þessum heimshluta og að kosningarnar í janúar hafi sýnt að fólk getur haft áhrif, lýðræði getur líka virkað í Miðausturlöndum. Bush Bandaríkjaforseti og menn hann álíta þetta bestu sönnum þess að stríðið í Írak hafi verið réttmætt og að sú stefna Bush að breiða lýðræði út um allan heim, nánast með góðu eða illu, beri árangur. Jafnvel efasemdarmenn og harðir gagnrýnendur eins og Ted Kennedy sjá ástæðu til að hrósa Bush fyrir þátt hans í atburðarásinni. Svo virðist sem Hosni Mubarak, Mahmoud Abbas og drúsaleiðtoganum í Líbanon, Walid Jumblatt, hafi tekist það sem Rumsfeld, Rice og Cheney hefur ekki tekist hingað til: að þagga niður í helstu andstæðingum Íraksstríðsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×