Erlent

Jóhannes Páll strax í dýrlingatölu

Allt bendir nú til þess að Jóhannes Páll páfi annar verði sá maður sem skjótast verður tekinn í tölu dýrlinga eftir andlátið. Benedikt páfi sextándi hefur fellt niður fimm ára regluna svokölluðu og Vatíkanið er þegar farið að kanna möguleg kraftaverk. Jóhannes Páll páfi annar lést í apríl eftir langvinn veikindi. Strax við útför hans sáust borðar á lofti með áletruninni „Santo subito!“ eða Dýrlingur strax! Yfirleitt líða að minnsta kosti fimm ár frá láti manns þar til Vatíkanið fer svo mikið sem að velta fyrir sér hvort viðkomandi sé þess verður að komast í dýrlingatölu. Pólski biskupinn Slawomir Oder segir að kardínálarnir séu á sama máli og almenningur að hefja eigi strax ferlið til að gera Jóhannes Pál að dýrlingi. Það hafi þátt í því að Benedikt páfi felldi niður fimm ára biðtímann. Nokkrum embættismönnum Vatíkansins hefur verið falið að safna gögnum um Jóhannes Pál annan og munu þeir sverja þess eið á morgun að halda öllu leyndu sem þeir komast að auk þess sem þeir heita því að taka ekki við neinum gjöfum sem gætu túlkast sem mútur til að hafa áhrif á niðurstöðu þeirra. Vatíkanið þarf að staðfesta að kraftaverk hafi átt sér stað eftir lát páfa og það þarf annað kraftaverk eftir að Benedikt sextándi hefur lýst því yfir að hann sé kominn í hóp blessaðra á himnum til þess að Jóhannes Páll annar verði opinberlega dýrlingur. Í gegnum tíðina hafa oft liðið aldir áður en menn voru útnefndir dýrlingar en svo virðist sem allt eigi að gera til að flýta fyrir Jóhannesi Páli. Svipað var reyndar uppi á teningnum eftir lát Móður Teresu en hún var tekin í dýrlingatölu sex árum síðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×