Erlent

Vilja fornleifagarð í stað heimila

Borgaryfirvöld í Jerúsalem vilja rífa 88 hús Palestínumanna og reisa þar stóran fornleifagarð. Íbúarnir mótmæla. Hverfið sem húsin 88 standa í heitir Silwan og er rétt fyrir utan borgarmúra gömlu Jerúsalem. Eins og annars staðar í borginni er varla hægt að stinga þar niður skóflu án þess að rekast á einhverjar fornleifar. Til hliðar við Silwan er einmitt fornleifauppgröftur sem borgaryfirvöld vilja stækka. Þau vilja því rífa húsin, grafa upp svæðið og reisa þar fornleifagarð. Íbúarnir, sem sumir hafa búið þarna áratugum saman, eru ekki hrifnir af þessum fyrirætlunum. Þeir segja engan vafa leika á eignarhaldi á húsum sínum og þeir hafi pappírana til að sanna það. Það hefur ekki farið framhjá Palestínumönnum að með því að rífa húsin 88 og reisa garðinn verður bein tenging milli hverfa gyðinga í Silwan og Jerúsalem. Bæði Palestínumenn og ísraelsk mannréttindasamtök saka stjórnvöld um að nota skipulagsmál til þess að leggja hömlur á fjölgun Palestínumanna í Jerúsalem.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×