Erlent

Fundu bílsprengjuverksmiðjur

Írakski herinn hefur handtekið fjölda manna og fundið nokkrar bílsprengjuverksmiðjur í herferð sinni gegn hryðjuverkamönnum í Bagdad. Margir hinna handteknu eru erlendir ríkisborgarar. Fjörutíu þúsund íraskir hermenn og lögreglumenn hófu á sunnudag herferð í Bagdad gegn hryðjuverkamönnum sem hafa myrt yfir 800 manns í þessum mánuði. Ibrahim al-Jaafari, forsætisráðherra Íraks, sagði að fjölmargir menn hafi þegar verið handteknir og nokkrar bílsprengjuverksmiðjur hafi fundist. Forsætisráðherrann sagði að margir hryðjuverkamannanna væru erlendir, svo sem frá Sýrlandi, Alsír, Jórdaníu, Sádi-Arabíu og Marokkó. Sóknin gegn hryðjuverkamönnum verður enn hert á næstu dögum. Verið er að setja upp varðstöðvar á öllum vegum sem liggja að höfuðborginni og leitað verður í bílum sem þar fara um. En þótt það sé í sjálfu sér gott að finna sprengjuverksmiðjur er hin sorglega staðreynd sú að í Írak er svo mikið af sprengiefni og skotvopnum að það er eins og dropi í hafið að finna eina og eina verksmiðju eða felustað vígamanna. Það á heldur enginn von á því að neitt lát verði á sprengjutilræðum eða skotárásum á næstunni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×