Erlent

Prófraun ESB-sáttmála í Hollandi

Hollenskir stjórnmálaleiðtogar gerðu í gær lokatilraun til að telja landa sína á að greiða atkvæði með staðfestingu stjórnarskrársáttmála Evrópusambandsins. En síðustu skoðanakannanir sem birtar voru fyrir ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsluna í dag bentu til að enn hærra hlutfall hollenskra kjósenda myndi segja "nei" en franskir. Hinir síðarnefndu höfnuðu sáttmálanum í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu á sunnudaginn með 55 gegn 45 af hundraði greiddra atkvæða. Hafni kjósendur í öðru stofnríki Evrópusambandsins sáttmálanum með svo afgerandi hætti eru allar líkur á því að hann komist aldrei til framkvæmda. Öll aðildarríkin 25 þurfa að fullgilda sáttmálann til að hann geti tekið gildi. Slík niðurstaða myndi knýja leiðtoga sambandsins til að hefja endurskoðun á stefnu Evrópusamvinnunnar er þeir koma saman á misserislokafundi sínum í Brussel eftir hálfan mánuð. Wolfgang Schüssel, kanslari Austurríkis, varpaði fram þeirri hugmynd í gær að ein allsherjaratkvæðagreiðsla í öllum aðildarríkjunum yrði látin skera úr um örlög sáttmálans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×