Innlent

Dagur íslenskrar tungu í dag

Jónas Hallgrímsson.
Jónas Hallgrímsson.
Dagur íslenskrar tungu er í dag, 16. nóvember, en það er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar þjóðskálds. Dagsins verður minnst með margvíslegu móti, bæði í skólum, stofnunum og fyrirtækjum.

Í ár er bryddað upp á þeirri nýjung að efna til sérstaks bókmenntaþings sem ætlað er börnum og unglingum á aldrinum 10-16 ára, en það verður haldið í safnaðarheimili Keflavíkurkirkju. Þá er dagur íslenskrar tungu orðinn fastur upphafsdagur Stóru upplestrarkeppninnar sem fram fer í grunnskólum landsins.

Auk þess veitir menntamálaráðherra verðlaun Jónasar Hallgrímssonar í tíunda sinn við hátíðlega athöfn í Duus-húsum í Reykjanesbæ, en þau fær sá einstaklingur sem hefur með sérstökum hætti unnið íslenskri tungu gagn í ræðu eða riti. Þar eru einnig veittar tvær sérstakar viðurkenningar fyrir stuðning við íslenska tungu, en meðal þeirra sem hlotið hafa þær eru Spaugstofan og Kvæðamannafélagið Iðunn.

Dagskráin á degi íslenskrar tugu teygir sig reyndar fram á laugardaginn en þá fer fram málræktarþing í hátíðasal Háskóla Íslands milli kl. 11 og 13.30. Umræðuefnið er að þessu sinni íslensk málstefna og starfsemi Íslenskrar málnefndar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×