Innlent

Umhverfissinnar áfrýja skyrslettudómi

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Ólafur Páll Sigurðs­son, sem ásamt Örnu Ösp Magnúsar­dóttur hefur verið dæmdur fyrir að sletta grænlituðu skyri á ráðstefnugesti á Hótel Nordica í sumar, segir líklegt að dómnum verið áfrýjað. "Frestur til þess er ekki liðinn þar sem enn á eftir að birta okkur dóminn," segir hann.

Dómurinn var kveðinn upp 31. október í Héraðsdómi Reykja­víkur, en frá því að dómar eru birti hefur fólk þrjár vikur til að áfrýja. Hvorki Ólafur Páll né Arna Ösp voru viðstödd uppkvaðninguna og því þarf stefnuvottur að birta þeim dóminn.

Ólafur Páll og Arna Ösp fengu samhljóðandi tveggja mánaða fangelsisdóm, sem hjá báðum var skilorðsbundinn í tvö ár. Þá var þeim gert að greiða hótelinu þar sem ráðstefnan var haldin 362.245 krónur í bætur og svo málsvarnarlaun sem samtals nema tæpum 600 þúsund krónum hjá báðum.

Bretinn Paul Geoffrey Gill var líkt og Ólafur Páll og Arna dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir aðild sína, en sá dómur gekk í byrjun júlí. Miklu munar þó bótakröfum í máli hans og máli þeirra.

Í báðum málum var ákært fyrir stórfelld eignaspjöll, en í máli Pauls voru skemmdir metnar á tæpar 2,9 milljónir króna. Bótakröfum var þó vísað frá í máli hans þar sem hann játaði brot sitt greiðlega, en efaðist um bótakröfuna. Í slíkum tilvikum eru bótakröfur ekki látnar tefja dómsuppkvaðningu.

Þegar málarekstur á hendur Ólafi Páli og Örnu hófst kom hins vegar í ljós að skemmdir af völdu skyrslettnanna höfðu verið stórlega ofmetnar og hlutir sem áður voru sagðir ónýtir reyndust bara þurfa á hreinsun að halda.

"Við ákvörðun refsingar ákærðu er litið til þess að brot þeirra voru framin af eindregnum ásetningi og bera gögn málsins og framburður þeirra fyrir dómi með sér að aðgerðin var fyrir fram skipulögð," segir í dómnum sem Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kvað upp.

Með því að sprauta grænu skyri á álráðstefnunni vildi fólkið mótmæla meintum umhverfisglæpum álfyrirtækja víða um heim og vekja athygli á þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×