Innlent

Kerfið beri ábyrgð á sjálfsmorði

Móðir ungrar konu sem svipti sig lífi í Kvennafangelsinu í Kópavogi í nóvember vill láta rannsaka hvort kerfið beri ekki einhverja ábyrgð á því hvernig fór. Dóttir hennar hafði ítrekað reynt að kalla eftir hjálp áður en hún fannst látin í klefa sínum. Jóna Sigurveig Guðmundsdóttir, þrítug að aldri, móðir þriggja ungra barna, fannst látin í klefa sínum í kvennafangelsinu í Kópavogi að morgni 17. nóvember í fyrra. Hún hafði svipt sig lífi eftir að hafa ítrekað beðið um að verða lögð inn á geðdeild. Móðir hennar, Hulda Kjörenberg, segir engan geta ímyndað sér hvernig upplifun þetta sé. „Kannski hefði þetta ekki verið eins þungbært ef hún hefði ekki átt þrjú lítil börn,“ segir Hulda sem kveðst hafa haldið að Jóna væri í góðum höndum í fangelsinu. Hulda segist eiga erfitt með að sætta sig við að enginn beri ábyrgð á því sem gerðist. Sá sem svipti aðila frelsi hljóti að bera ábyrgð á viðkomandi og fangelsisyfirvöldum átti að hafa verið kunnugt um slæma geðheilsu Jónu. Samtökin Geðhjálp ætla að aðstoða Huldu á allan máta við að leita svara og ætla að gangast fyrir því að Landlækni verði sent erindi vegna málsins, sem og umboðsmanni Alþingis. Þá útilokar Sveinn Magnússon, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, ekki að það verði höfðað einkamál til að láta reyna á ábyrgð yfirvalda á málinu. Hann segir ekki verið að leita að blóraböggli í málinu heldur sé verið að reyna að koma í veg fyrir að svona endurtaki sig.    



Fleiri fréttir

Sjá meira


×