Innlent

Mannréttindi barna brotin

Sveitarfélög vilja viðræður við ríkið um skýrari lög um búseturétt eftir að Hæstiréttur úrskurðaði að fimm manna fjölskylda mætti skrá lögheimili sitt í sumarhúsi í Bláskógarbyggð. Guðlaugur Hilmarsson faðirinn í fjölskyldunni segir hana hafa verið bænheyrða: "Það er þakkarvert að dómurinn hafi fallið okkur í vil." Fjölskyldan flutti í húsið í febrúar í fyrra í óþökk sveitarfélagsins þar sem forsvarsmönnum þess þótti of kostnaðarsamt að veita þeim sem það kysu lögbundna þjónustu. Guðlaugur segir að málið hafi ekki þurft að fara í hart. Þau hafi ekki beðið um aukna þjónustu og hafi til að mynda ætlað að keyra sín börnin sjálf í skólann. Þau hafi jafnvel fengið lánað lögheimili til að tryggja börnunum skólavist en ekki gengið. "Börnin eru samtals búin að missa úr heila önn úr skóla. Krakkarnir þurfa stuðning í skólanum og þetta hefur því verið mjög slæmt," segir Guðlaugur en börnin hófu öll skólagöngu eftir að dómur féll í héraðsdómi. Sá elsti í tíunda bekk, næstelsti sem er tíu ára og einhverfur í fimmta bekk og sú yngsta í fyrsta. Guðlaugur segir mannréttindi barnanna hafa verið gróflega brotin. Framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, Þórður Skúlason, segir dóminn koma á óvart. Hagur sveitarfélaganna sé ekki aðeins tryggður með því að bústaðir séu ekki lögheimili fólks heldur einnig annarra sumarhúsaeigenda sem vilji eiga athvarf frá heilsársbyggð. "Við teljum að niðurstaða hæstaréttar sé sú að löggjöfin um búsetturéttinn sé ekki næganlega skýr," segir Þórður: "Við veltum fyrir okkur að taka upp viðræður við ríkisvaldið um setningu skýrari laga sem kveða á um það hvar menn hafa rétt til að staðsetja sig." Einn dómaranna fimm í Hæstarétti skilaði séráliti. Fjölskyldan hafi óskað eftir að byggja sumarhús en ekki heimili. Málið hafi því ekki snúist um hvort fólk mætti ráða hvar það byggi eins og meirihluti dómara taldi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×