Innlent

Ný umferðarmerki tekin í gagnið

Í byrjun næsta mánaðar verða sett upp fyrstu viðvörunarmerkin við staði á þjóðvegum landsins þar sem mikið hefur verið um umferðarslys. Með merkjunum er fólk hvatt til að draga úr hraða ökutækis við þessa svörtu bletti, þrátt fyrir að leyfilegur hámarkshraði kunni að vera meiri. Merkin eru sett upp í samvinnu við Vegagerðina, en þau eru hluti af þjóðarátaki Vátryggingafélags Íslands gegn umferðarslysum. Félagið stendur nú fyrir slíku átaki fimmta sumarið í röð undir yfirskriftinni: "Hægðu á þér - tökum slysin úr umferð." "Staðreyndin er sú að hraðinn er aðalóvinurinn í umferðinni og alvarlegu slysin hafa verið að færast úr þéttbýlinu út á þjóðvegina," segir Ragnheiður Davíðsdóttir, forvarna- og öryggisfulltrúi VÍS, en hún kynnti átakið fjölmiðlum í æfingasal endurhæfingardeildar Landspítala-háskólasjúkrahúss á Grensási í gær. Fyrirtækið gengst á næstu vikum fyrir auglýsingaherferð í útvarpi og sjónvarpi til að vekja athygli á afleiðingum umferðarslysa um leið og ökumenn eru hvattir til að draga úr hraðanum. Þá verður og vakin athygli á nýju umferðarmerkjunum sem auðkenna eiga slysabletti. Ágúst Mogensen, framkvæmdastjóri Rannsóknarnefndar umferðarslysa, sagði á kynningarfundinum að 70 prósent alvarlegra umferðarslysa yrðu í dreifbýli. "Ef rekast saman á þjóðvegi tveir bílar á 90 kílómetra hraða þá verður bana- eða alvarlegt umferðarslys," sagði hann, en áréttaði um leið að nýju viðvörunarmerkin væru leiðbeinandi. "Sumar beygjur á þjóðvegum landsins er ekki hægt að taka á 90 kílómetra hraða, þrátt fyrir að það sé leyfður hámarkshraði." Hann kallaði einnig eftir aukinni löggæslu og þyngri refsingum til handa þeim sem valda öðrum vegfarendum stórhættu með ofsaakstri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×