Innlent

Hordauður fugl við strendurnar

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur beðið fuglaáhugamenn vítt og breitt um landið að láta vita ef vart verður við dauðan eða deyjandi svartfugl. Allt bendir til að svartfugl sé að drepast úr hor við Ísland, fjórða veturinn í röð, en fyrir þremur árum drápust tugir eða hundruð þúsunda svartfugla við strendur landsins vegna skorts á æti. Næstu vetur þar á eftir drapst einnig mikið af fugli en þó ekki jafn mikið og veturinn 2001 til 2002. Í desember síðastliðinn urðu skotveiðimenn varir við horaðan fugl úti af Norðurlandi og í upphafi árs rak mikið af hungurdauðum fugli á land á norðausturhorni landsins. Einkum er það langvía og stuttnefja sem drepist hefur en einnig álka. Að sögn Brynjúlfs Brynjólfssonar fuglaáhugamanns á Hornafirði hefur dauður fugl einnig fundist við Vestmannaeyjar en ekki hefur borið á svartfuglsdauða á þessum vetri á Austfjörðum. "Það er hugsanlegt að meira æti sé úti af Austurlandi en þar er nú til dæmis mikið af loðnu," sagði Brynjúlfur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×