Innlent

Viðbúnaðarástand á Vestfjörðum

Almannavarnanefndir á norðanverðum Vestfjörðum, í samráði við Veðurstofu Íslands, lýstu fyrir stundu yfir viðbúnaðarástandi í öllum þéttbýlisstöðum á svæðinu vegna snjóflóðahættu. Mikið hefur snjóað við Ísafjarðardjúp síðan í nótt eða allt að fjórir millímetrar á klukkustund að sögn Leifs Svavarssonar á Veðurstofunni. Mikið fóður er því fyrir skafrenning og spáð er norðan 15 til 23 metrum á sekúndu í dag. Þá varar Vegagerðin við snjóflóðahættu á vegunum um Óshlíð, Súðavíkurhlíð og Flateyrarveg. Þrjú snjóflóð hafa fallið á Óshlíðarveginn en Vegagerðarmenn hafa streist við að halda honum opnum fram í hádegið svo fólk komist til síns heima áður en óveðrið skellur á, ef veðurspáin gengur eftir, að sögn Önundar Jónssonar yfirlögregluþjóns á Ísafirði. Önundur segir að snjóað hafi nánast samfellt síðan klukkan fjögur í morgun en þó misjafnlega mikið. Á Ísafirði séu um 35-40 sentímetrar af jafnföllnum snjó sem sé laus í sér. Ef spáin gangi eftir fari snjórinn því af stað og búast megi við mikilli blindu og kófi. Þá sé erfitt að halda vegum utan þéttbýlis opnum. Önundur sagði almannavarnanefnd í viðbragðsstöðu og hvatti fólk til þess að halda sig heima ef veður versnaði síðar í dag. Mikill snjór væri á svæðinu og fólk lenti fljótt í ógöngum. Alls staðar þar sem skafið gæti myndi skafa í skafla fljótt og þeir staðir þar sem búið væri að grafa snjógöng tepptust því fljótt. Aðspurður sagði Önundur snjósöfnun í hlíðum hættulegasta og þegar lausamjöll skæfi festist hún í giljum og þar kæmu flóðin mest niður.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×