Innlent

Tjónið skiptir milljónum

Tryggingarfélagið Sjóvá-almennar vinnur nú að því að meta tjón skútunar Svölu sem skemmdist eftir að hún rak mannlaus og fór svo hálf í kaf þegar hún var dreginn til hafnar í Þorlákshöfn í síðustu viku eftir ævintýralega ferð frá Færeyjum. Að sögn Halldórs Teitssonar, deildarstjóra sjódeildar Sjóvá-Almennar, er líklegt að siglingatæki séu mikið skemmd en menn binda vonir við að vél skútunar sé í lagi. Því má gera ráð fyrir að tjón og björgunarkostnaður nemi nokkrum milljónum króna. Hann segir að sennilegast verði gert við skútuna en þó geti til þess komið að hún yrði seld ef viðgerðar- og björgunarkostnaður verður yfir þeirri fjárhæð sem vátryggingin nemur. Ekki er vitað hversu mikið áhöfnin á Ársæli fær greitt fyrir sína björgunaraðgerð en þeir komu að skútunni á reki og drógu hana til hafnar í Þorlákshöfn. Sjópróf eru talin óþörf en rannsóknarnefnd sjóslysa gerir hins vegar sjálfstæða rannsókn á þessu máli að sögn Hilmars Snorrasonar, sem á sæti í nefndinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×