Sport

Björninn sleppur vel

Skautafélagið Björninn, sem gekk af velli í miðjum leik gegn Skautafélagi Reykjavíkur á Íslandsmótinu í október sl. í mótmælaskyni við dómgæslu í leiknum, fær einungis 20 þúsund króna sekt. Félagið sleppur að öðru leyti með skrekkinn. Í úrskurði aganefndar Íshokkísambandsins segir að sektarupphæðin sé táknræn og ekki fordæmisgefandi. Þar sem ekkert fordæmi er fyrir slíkri uppákomu í sögu Íshokkisambandsins „þykir ekki rétt að dæma félagið í harða refsingu“, eins og það er orðað, heldur nota þetta mál sem fordæmi og að framvegis verði tekið mun harðar á þessum málum. Er þá litið til reglugerðar hjá Knattspyrnusambandi Íslands þar sem sem lið sem yfirgefur leikvöll í mótmælaskyni getur átt á hættu að vera rekið úr keppni og sektað um allt að 100 þúsund krónur. Hvergi kemur fram í úrskurði aganefndar hver úrslit leiksins eiga að vera en formaður Íshokkísambandsins segir að Björninn tapi leiknum 10-0 - það sé klárt. Aganefnd Íshokkísambands dæmdi leikmann Skautafélags Akureyrar, Clark McCormick, í fjögurra leikja bann fyrir „vísvitandi árás á dómara“, eins og það er orðað, í leik gegn Skautafélagið Reykjavíkur 30. janúar sl. McCormick er gefið að sök að hafa gefið dómaranum þungt olnbogaskot í síðuna. Annað ofbeldismál sem aganefnd Íshokkísambandsins tók fyrir átti sér stað í leik Bjarnarins og SR 26. janúar sl. Hrólfur M. Gíslason var dæmdur í tveggja leikja bann eftir átök við leikmann SR sem lyktaði með því að Hrólfur kippti til höfði andstæðingsins og rak annað hnéð í andlit hans, eftir því sem segir í skýrslu aganefndar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×