Innlent

Norðlingaölduveita aftur komin á byrjunarreit

Norðlingaölduveita er aftur komin á byrjunarreit eftir að umhverfisráðherra hafnaði því að staðfesta breytingar nefndar um skipulag miðhálendisins.

Forstjóri Landsvirkjunar telur að nú eigi nefndin að samþykkja veituna eins og hún kom fyrir í úrskurði setts umhverfisráðherra enda hafi hún falið í sér sátt. Formaður nefndar um miðhálendið segir sátt víðsfjarri enda hafi tillagan sem umhverfisráðherra hafnaði tekið tillit til óska heimamanna. Hann telur að alþingi þurfi að skýra betur lög sem virðast banna að veitunni sé breytt.

Umhverfisráðherra fór í dag að tillögum skipulagsstofnunar og hafnaði þeim tillögum nefndar um skipulag miðhálendisins sem fólu í sér að minnka Norðlingaölduveitu um rúm 20% með því að taka út eitt af lónum veitunnar. Þetta gerði umhverifsráðherra vegna þess að í lögum um raforkuver frá árinu 2003, sem sett voru sérstaklega vegna veitunnar, er iðnaðaráðherra heimilað að veita Landsvirkjun leyfi til raforkuframleiðslu samkvæmt úrskurði setts umhverfisráðherra frá árinu 2003. Tillaga nefndarinnar fól í sér þá breytingu að veitan er minnkuð talsvert og eitt af lónum hennar tekið út en gert ráð fyrir háhitavirkjun þess í stað.

Samkvæmt túlkun Skipulagsstofnunar og ráðherra er það ekki heimilt. Forstjóri Landsvirkjunar fagnar þessum úrskurði og telja nú í lófalagið að nefndin komi saman aftur og samþykki veituna útfrá tillögu Jóns. Þetta telur Óskar Bergsson, formaður samvinnunefndar um skipulag miðhálendisins, ekki sömu sátt og forstjóri Landsvirkjunar enda hafi tillögur nefndarinnar að skipulagi svæðisins verið viðbrögð við athugasemdum heimamanna og einnig hafi verið komið til móts við Landsvirkjun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×