Innlent

Lyfjaþegar ákveðins blóðþrýstingslyfs fá frítt í World Class

Lyfjafyritækið Novartis hefur ákveðið að gefa öllum sjúklingum sem fá ávísað blóðþrýstingslyfi frá þeim fría líkamsrækt í World Class. Þrátt fyrir fjölmargar athugasemdir gaf Lyfjastofnun samþykki sitt og segir markaðsátakið nýstárlegt.

Lagaákvæði banna að læknar þiggi gjafir eða önnur fríðindi af lyfjafyrirtækjum. En engin reglugerð er til sem beinlínis bannar læknum að hafa milligöngu um að sjúklingar þeirra njóti fríðinda eða viðbótarmeðferðar eins og að þiggja fría líkamsrækt.

Það er lyfjafyrirtækið Novartis sem fer þessa nýstárlegu leið í markaðssetningu á blóðþrýstingslyfi. Novartis gerði samning við World Class um borga þriggja mánaða líkamsrækt fyrir lyfjaþegana um leið og þeir kaupa þriggja mánaða lyfjaskammt. Talsmaður fyrirtækisins segir þetta gert með samþykki landlæknis og Lyfjastofnunar. Björn Leifsson, framkvæmdastjóri World Class, segir að til standi að framkvæma tvívirka rannsókn þar bornir verða neytendur lyfsins sem þiggja líkamsrækt og þeir sem ekki gera það.

Rannveig Gunnarsdóttir, forstjóri Lyfjastofnunar, segir að nokkrar athugasemdir hafi borist bæði frá öðrum framleiðendum blóðþrýstingslyfja og læknum. Hún sagði Lyfjastofnun ekki setja sig upp á móti markaðsátakinu þar sem ekki er um beina gjöf að ræða heldur einhvers konar viðbótarmeðferð. Hún sagði að Lyfjastofnun hefði eftirlit með markaðsátakinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×