Innlent

Bíður eftir að komast í endurhæfingu

MYND/Vísir

Björn Hafsteinsson strætisvagnabílstjóri, sem missti báða fæturna í umferðarslysi í ágúst, er kominn í jólaskap og bíður eftir að komast í endurhæfingu eftir áramótin.

Það var um miðjan ágúst sem Björn slasaðist þegar að strætisvagn sem hann ók og vörubíll skullu saman. Hann var með meðvitund allan tímann og segist m.a.s. muna eftir sér á skurðarborðinu þar sem kona hafi sagt honum að það þyrfti a.m.k. að taka af honum aðra löppina. Björn kveðst þá hafa sagt að hann vildi að það yrði þá gert strax, og hann hafi hugsað um leið að til væru gervilappir sem hann gæti notast við.

Björn fór heim af spítalanum í byrjun október en sýkingar seinkuðu heimferð nokkuð. Fyrir nokkru fékk hann hulsur frá Össuri til þess að venja stúfana við en hulsurnar eru nauðsynlegur hluti gervifóta. Í byrjun árs fer Björn svo í endurhæfingu og verður þá hafist handa við að smíða gervifæturna fyrir hann. Björn er alveg klár á því að hann ætlar að ganga aftur og það sem fyrst. Hann mun þó alltaf þurfa að hafa hjólastólinn innan handar ef sár eða blöðrur koma á stúfana. Hann segist hafa náð góðum tökum á hjólastólnum og ekki hafi liðið nema 1-2 vikur áður en hann hafi getað farið úr rúminu í stólinn af sjálfsdáðum - enda sé hann handsterkur.

Björn kemst lítið út en hann býr í fjölbýlishúsi þar sem engin lyfta er til staðar. Hann fær þó stöku sinnum þjónustubíl fyrir fatlaða til að komast út úr húsi. Hann hefur fest kaup á nýrri íbúð í Grafarvogi þar sem er lyfta svo hann eigi auðveldara með að komast um og vonast hann til þess að fá afhent á milli jóla og nýárs. Til að drepa tímann þegar aðrir eru að vinna er hann í tölvunni, horfir á sjónvarp og annað sem hann finnur sér til dundurs. Björn segist alltaf hafa líkað vel að vinna og hann saknar vinnunnar.

Björn vill þakka öllum þeim sem hafa stutt hann eftir slysið, og þá sérstaklega konunni sinni, Hjördísi Pétursdóttur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×