Innlent

Óvissa á sjö leikskólum

Leikskólakennarar á leikskólanum Hömrum í Grafarvogi bættust í gær í hóp leikskólakennara á sjö leikskólum sem hyggjast segja upp vinnu sinni um áramótin vegna óánægju með laun. Formaður Félags leikskólakennara segir sinnuleysi valda því að margir leikskólakennarar sjái ekki aðra færa leið en að segja upp störfum. Borgarstjóri hyggst ræða við félagið á milli jóla og nýárs.

Eins og fram kom í kvöldfréttum NFS í gær ákváðu leikskólakennarar á sex leikskólum í Grafarvogi og Grafarholti að segja upp störfum frá og með 1. janúar.

Ástæðan eru lág laun og ekki síst nýgerðir kjarasamningar Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og Eflingar fyrir hönd ófaglærðra starfsmanna leikskóla, sem margir leikskólakennarar fullyrða að hafi það í för með sér að ófaglærðir starfsmenn hafi nú margir hverjir hærri laun en faglærðir leikskólakennarar. Í gærkvöldi bættust svo leikskólakennarar á leikskólanum Hamri í hóp þeirra sem boða uppsögn að óbreyttu. Björg Bjarnadóttir, formaður félags leikskólakennara, segir tímann verða að leiða það í ljós hvort til uppsagnanna komi. Hún segist þó ekki efast um að alvara liggi að baki yfirlýsingum leikskólakennaranna - það hafi viðbrögð síðustu vikna sýnt.

Björg leggur áherslu á að boltinn sé nú hjá launanefnd sveitarfélaga.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, borgarstjóri, sagði í samtali við NFS nú fyrir fréttir að hún hefði boðað forsvarsmenn félags leikskólakennara á sinn fund milli jóla og nýárs. Hún lagði þó áherslu á það líkt og Björg að boltinn væri nú hjá launanefndinnni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×