Innlent

Byssur og dóp í Vogunum

Á þriðja tug skotvopna og umtalsvert magn af fíkniefnum fannst við húsleit lögreglu á miðvikudaginn í atvinnuhúsnæði á Vatnsleysuströnd og í fimm íbúðum í Vogum og Njarðvík. Vopnunum var stolið á Húsavík í lok nóvember.

Lögreglan á Húsavík hefur leitað skotvopnanna síðan í lok Nóvember, en þau fundust öll á Suðurnesjum auk fimm annarra skotvopna sem gerð voru upptæk vegna gruns um brot á vopnalögum.

Leitað var í fimm íbúðarhúsum og atvinnuhúsnæði á Vatnsleysuströndinni.

Vopnunum var stolið frá vopnasafnara á Húsavík sem er með leyfi fyrir sínu safni en auk þess skotveiðimaður. Um er að ræða aðallega riffla og haglabyssur, auk þess tvær skammbyssur, bæði var um að ræða virk skotvopn og eftirlíkingar.

Fimm karlmenn á þrítugs- og fertugsaldri voru handteknir en látnir lausir af loknum yfirheyrslum. Flestir hafa komið áður við sögu lögreglu.

Þá var einnig lagt hald á sextíu og tvær kannabisplöntur auk nokkurs magns af skornum plöntum, sem ræktað hafði verið í iðnaðarhúsnæðinu á Vatnsleysuströndinni, einnig fundust við húsleitir, tíu grömm af hassi og fimmtíu grömm af amfetamíni. Þá fannst einnig þýfi sem tengdist þjófnaðarmálum í Kópavogi og síðast en ekki síst fannst lifandi snákur sem hefur nú verið aflífaður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×